Forgotten Realms - The Ring of Winter

Til Calling Horns

Loksins hvíld

Hetjurnar héldu áfram förinni eftir að Evelyn hafði komið bókinni fyrir undir kuflinum. Þær vissu af Darkskull orkunum einhvers staðar nærri og fóru því hratt yfir. Eftir því sem leið á daginn tók veðrið að versna og ekki leið á löngu þar til að regn og vindur barði hetjurnar. Eldingum sló niður á heiðinni og þrumur drundu. Þegar skyggja tók ræddu hetjurnar hvort þær ættu að halda áfram og varð ofan á að reyna komast nær þorpinu Calling Horns. 

Um miðnætti voru Nedgrace og Alazar bæði orðin dauðuppgefin. Jeager og Ruthgar reyndu að finna skjólgóðan næturstað en allt kom fyrir ekki. Að lokum varð ofan á að skríða ofan í skurð við hlið vegarins og breiða teppi yfir hópinn. Það var köld og ömurleg vist en sem betur fer tókst þeim að hvíla sig. Í aftureldingu varð Noki var við hreyfingu og leit upp úr skurðinum. Nokkru ofar á veginum var stórt tröll á fjórum fótum sem viðraði í allar áttir. Það virtist vera komið á slóð hetjanna. Noki vakti því vini sína sem vígbjuggust um leið og þeir komu sér fyrir á veginum. Um leið og tröllið varð hetjanna vart öskraði það ógurlega og ruddist fram. Hið sama gerðu Ruthgar og Noki á meðan þau hin notuðu ýmist galdra eða skotvopn. Eftir nokkra stund lá tröllið í valnum, en því hafði tekist að særa Ruthgar illa. 

Eftir að hetjurnar höfðu gengið frá líki tröllsins héldu þær aftur af stað. Það rigndi enn en eftir því sem birta tók af degi dró úr regninu og sólin braust fram úr skýjaþykkninu, hetjunum til mikillar gleði. Þær flýttu því för og náðu að Calling Horns seint um kvöldið. Þorpið, sem stóð skammt frá Everlund slóða, var ekki stórt, rétt örfá hús byggð í kringum stórt gistihús. Evelyn lagði til að þau kæmu sér fyrir á gistihúsinu og hvíldu mjög svo lúin bein. 

Það voru því fagnaðarfundir þegar hópurinn gekk inn á gistihús Tamara Zoar og fann þar Harild, Lirial og Krall. Eftir að Harild hafði fengið að heyra ferðasögu hetjanna, þá ákváðu flestir að leggjast til hvílu. Noki reyndar hafði þó fyrir því að láta þorpsverðina vita af því að hugsanlega væri hópur orka á hælum þeirra og upp varð fótur og fit í þorpinu. Íbúum var smalað saman og gistu flestir á ölstofu gistihússins þar um nóttina, en engin árás var gerð. 

Hetjurnar fóru á fætur þegar nokkuð var liðið fram á morgun og fundu Evelyn, Lirial og Harild í samræðum við eitt borðanna á ölstofunni. Lirial hafði gengið fram á hesta reiðmannanna sem Evelyn sendi á undan sér frá Everlund. Hálf-álfurinn sýndi hetjunum, að Nedgrace undanskilinni, hvar hestanna var að finna og kom Ruthgar auga á hvar slóði lá frá turnrústunum, þar sem hestarnir höfðu verið faldir, að brú yfir á eina skammt frá þorpinu. 

Eftir nokkrar pælingar þá ákváðu hetjurnar að fylgja slóðinni og uppgötvuðu leynidyr undir brúnni. Jeager sótti þá Nedgrace og uppgötvaði hópurinn göng sem lágu inn í herbergi sem hafði augljóslega einhvern tíma verið einhvers konar rannsóknarstofa. Þar voru einnig ódauðar verur sem réðust gegn hetjunum en eftir nokkurn bardaga tókst hetjunum að bera þá ódauðu ofurliði og kveða þá niður.

Þá fundu hetjurnar aðrar leynidyr og gang handan þeirra sem endaði mjög undarlega og skyndilega. Þar var veggur úr allt öðru bergi en veggirnir í kring. Var þetta hetjunum nokkuð hugleikið. Sneru þær aftur að turninum og ákváðu að rannsaka hann betur. Eftir nokkra leit fundu þær hlera sem virtist liggja niður í kjallara turnsins.

Nedgrace sneri aftur á gistiheimilið til að láta Harild og Evelyn vita af uppgötvun sinni en hún komst að raun um að bókinni hafði verið stolið! Evelyn var miður sín og mátti litlu muna að Nedgrace hefði verið sökuð um þjófnaðinn, enda hafði hún gert tvær mislukkaðar tilraunir til að hnupla lyklum af Harild. Evelyn var algjörlega miður sín. Félagarnir rannsökuðu herbergi hennar og sáu að glugginn var lokaður að innan. Einnig uppgötvaði Alazar að enn eymdi af einhverri galdraáru inni í herberginu þó að hann bæri ekki nánari kennsl á hana. Eftir nokkrar eftirgrennslan kom í ljós að hálf-álfurinn sunnan frá Calimshan, Lirial, var einnig horfin.  

Comments

tmar78

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.