Forgotten Realms - The Ring of Winter

Til Calling Horns
Loksins hvíld

Hetjurnar héldu áfram förinni eftir að Evelyn hafði komið bókinni fyrir undir kuflinum. Þær vissu af Darkskull orkunum einhvers staðar nærri og fóru því hratt yfir. Eftir því sem leið á daginn tók veðrið að versna og ekki leið á löngu þar til að regn og vindur barði hetjurnar. Eldingum sló niður á heiðinni og þrumur drundu. Þegar skyggja tók ræddu hetjurnar hvort þær ættu að halda áfram og varð ofan á að reyna komast nær þorpinu Calling Horns. 

Um miðnætti voru Nedgrace og Alazar bæði orðin dauðuppgefin. Jeager og Ruthgar reyndu að finna skjólgóðan næturstað en allt kom fyrir ekki. Að lokum varð ofan á að skríða ofan í skurð við hlið vegarins og breiða teppi yfir hópinn. Það var köld og ömurleg vist en sem betur fer tókst þeim að hvíla sig. Í aftureldingu varð Noki var við hreyfingu og leit upp úr skurðinum. Nokkru ofar á veginum var stórt tröll á fjórum fótum sem viðraði í allar áttir. Það virtist vera komið á slóð hetjanna. Noki vakti því vini sína sem vígbjuggust um leið og þeir komu sér fyrir á veginum. Um leið og tröllið varð hetjanna vart öskraði það ógurlega og ruddist fram. Hið sama gerðu Ruthgar og Noki á meðan þau hin notuðu ýmist galdra eða skotvopn. Eftir nokkra stund lá tröllið í valnum, en því hafði tekist að særa Ruthgar illa. 

Eftir að hetjurnar höfðu gengið frá líki tröllsins héldu þær aftur af stað. Það rigndi enn en eftir því sem birta tók af degi dró úr regninu og sólin braust fram úr skýjaþykkninu, hetjunum til mikillar gleði. Þær flýttu því för og náðu að Calling Horns seint um kvöldið. Þorpið, sem stóð skammt frá Everlund slóða, var ekki stórt, rétt örfá hús byggð í kringum stórt gistihús. Evelyn lagði til að þau kæmu sér fyrir á gistihúsinu og hvíldu mjög svo lúin bein. 

Það voru því fagnaðarfundir þegar hópurinn gekk inn á gistihús Tamara Zoar og fann þar Harild, Lirial og Krall. Eftir að Harild hafði fengið að heyra ferðasögu hetjanna, þá ákváðu flestir að leggjast til hvílu. Noki reyndar hafði þó fyrir því að láta þorpsverðina vita af því að hugsanlega væri hópur orka á hælum þeirra og upp varð fótur og fit í þorpinu. Íbúum var smalað saman og gistu flestir á ölstofu gistihússins þar um nóttina, en engin árás var gerð. 

Hetjurnar fóru á fætur þegar nokkuð var liðið fram á morgun og fundu Evelyn, Lirial og Harild í samræðum við eitt borðanna á ölstofunni. Lirial hafði gengið fram á hesta reiðmannanna sem Evelyn sendi á undan sér frá Everlund. Hálf-álfurinn sýndi hetjunum, að Nedgrace undanskilinni, hvar hestanna var að finna og kom Ruthgar auga á hvar slóði lá frá turnrústunum, þar sem hestarnir höfðu verið faldir, að brú yfir á eina skammt frá þorpinu. 

Eftir nokkrar pælingar þá ákváðu hetjurnar að fylgja slóðinni og uppgötvuðu leynidyr undir brúnni. Jeager sótti þá Nedgrace og uppgötvaði hópurinn göng sem lágu inn í herbergi sem hafði augljóslega einhvern tíma verið einhvers konar rannsóknarstofa. Þar voru einnig ódauðar verur sem réðust gegn hetjunum en eftir nokkurn bardaga tókst hetjunum að bera þá ódauðu ofurliði og kveða þá niður.

Þá fundu hetjurnar aðrar leynidyr og gang handan þeirra sem endaði mjög undarlega og skyndilega. Þar var veggur úr allt öðru bergi en veggirnir í kring. Var þetta hetjunum nokkuð hugleikið. Sneru þær aftur að turninum og ákváðu að rannsaka hann betur. Eftir nokkra leit fundu þær hlera sem virtist liggja niður í kjallara turnsins.

Nedgrace sneri aftur á gistiheimilið til að láta Harild og Evelyn vita af uppgötvun sinni en hún komst að raun um að bókinni hafði verið stolið! Evelyn var miður sín og mátti litlu muna að Nedgrace hefði verið sökuð um þjófnaðinn, enda hafði hún gert tvær mislukkaðar tilraunir til að hnupla lyklum af Harild. Evelyn var algjörlega miður sín. Félagarnir rannsökuðu herbergi hennar og sáu að glugginn var lokaður að innan. Einnig uppgötvaði Alazar að enn eymdi af einhverri galdraáru inni í herberginu þó að hann bæri ekki nánari kennsl á hana. Eftir nokkrar eftirgrennslan kom í ljós að hálf-álfurinn sunnan frá Calimshan, Lirial, var einnig horfin.  

View
Á vegum Lionshield verslunarsamtakanna

Everlund

Það var heitt inni á kránni Stag-at-Bay við Bjöllutorg í Everlund. Enda margir gestir og mikill hávaði. Gestirnir dreifðust um báðar hæðir kráarinnar og báru margir þeirra þess merki að vera alvanir ævintýramenn. Margir báru vopn og aðrir voru jafnvel enn skítugir eftir langt ferðalag til borgarinnar. Dobrain Jeager leiddi vini sína í gegnum reykmettaðar þvöguna upp á aðra hæð, þar sem hann kom loks auga á borð á svölum með útsýni yfir Bjöllutorg. Þau höfðu komið til Everlund fyrir nokkrum dögum, eftir að hafa fylgt vagnalest dvergsins Gundar Rockseeker frá þorpinu Phandalin. Hvert sem litið var voru ævintýramenn að skeggræða atburði síðustu mánuða, uppgang Reglu Drekans, hinn sérkennilega sértrúarsöfnuð illu frumaflaprinsanna og hvernig sá söfnuður hefði haft hræðileg áhrif á umhverfi þorpsins Red Larch. Og nú bárust tíðindi norðan frá Ísvinda dölum, eitthvað skelfilegt hafði orðið til þess að samfélagsmynd risaættanna fór úr skorðum og herjuðu risar nú á íbúa Sverðastrandarinnar.

 Ekki leið á löngu þar til að dökkhærður, mjósleginn þjónn af kyni hálf-álfa kom auga á félagana og kom aðvífandi. 

- Komið sæl og verið velkomin á Stag-at-Bay. Ég heiti Jonah og mun þjóna ykkur eftir fremsta megni. Hvað má bjóða ykkur? Eruð þið svöng? Í dag bjóðum við upp á galtarkjöt, kryddaðar kartöflur og tómata að hætti hússins. Þá vorum við að fá sendingu af hunangsmiði, sem er alveg sérstaklega góður þetta haustið, sagði Jonah. Augu hans stöldruðu um stund við Alazar Sunbeam og ekki var laust við að ákveðinnar hörku gætti í bliki þeirra, en brosið hvarf þó aldrei af andliti þjónsins.

Vinirnir ákváðu að panta trog af mat og kollu af öli á mann. Þau ræddu saman um þessa orðróma á meðan þau biðu eftir matnum. Loks sneri Jonah aftur og ung aðstoðarstúlka með honum. Jonah hélt á vel útilátnu trogi af mat og kallaði lyktin fram vatn munni félaganna. Um leið og trogið var lagt á borðið biðu Rothar og Noki ekki boðanna og gripu stór kjötstykki. Halflingurinn Nedgrace gat ekki annað en skellt upp úr við aðfarir félaga sinna. 

Þau voru ekki langt kominn með matinn þegar sterklegur maður á miðjum aldri kom að borðinu. Hann var klæddur í veðraða leðurbrynju, með stórri axlarhlíf úr silfruðum málmi á hægri öxl og bar langsverð í slíðri á bakinu. Hjöltu sverðsins voru vandlega skreytt tveimur drekum sem hringuðust hvor um annan. Ör náði frá enni ofan við hægra auga og niður á kinn, augasteinninn var hvítur. Hann var sköllóttur en skeggrótin grásprengd. 

- Góða kvöldið, sagði hann hrjúfri röddu. – Mætti ég tylla mér hjá ykkur, vinir

Jeager leit á félaga sína en kinkaði síðan kolli. Sá sköllótti dró til sín stól og settist. 

- Ég heiti Harild Drougal og lestarstjóri fyrir Lionshield samtökin. Ég heyrði frá Gundar Rockseeker, félaga mínum, að þið væruð traustsins verð og öflugir vagnagæslumenn.

Félagarnir litu hver á annan. 

- Ég vil ráða ykkur til starfa, hélt Harild áfram, eins og þið vitið eflaust þá veigra margir sér við að taka að sér vagnagæslu um þessar mundir. Fyrir vikið er erfitt að fá góða menn til verksins. Gundar mælti með ykkur og ég treysti honum. Ég þarf að koma vagnalest héðan til Yartar eins fljótt og auðið er. Helst strax í fyrramálið. Ég get borgað hverjum ykkar 100 gullpeninga. Eruð þið til í að taka þetta ykkur?

Eftir nokkrar umræður og samningaumleitanir samþykktu vinirnir að taka þetta verkefni að sér og Harild bað þau um að hitta sig í aftureldingu við Brúarhlið. Hann lagði á það áherslu að mikilvægt væri að vagnalestin kæmist sem fyrst til Yartar, þar sem Lionshield verslunarsamtökin voru með höfuðstöðvar. Það sem eftir lifði kvölds nýttu vinirnir til að drekka öl en Jeager ákvað að hlaupa í nokkrar búðir til að kaupa seyði og aðrar nauðsynjar fyrir ferðina. 

-

Morguninn var bjartur og fagur. Vinirnir gættu þess að vera mættir tímanlega við Brúarhlið. Um leið og vagnalest Lionshield kom í ljós milli húsanna sáu þau að um var að ræða þrjá vagna, tvo opna hvar stóðu tunnur, kistur og sekkir. Þá var einnig einn lokaður vagn vandlega merktur Lionshield samtökunum.  Fyrir vögnunum voru hestar og ekill á hverjum vagni. 

- Hvað erum við að flytja? Hver er farmurinn? spurði Nedgrace eftir að Harild hafði kastað á þá kveðju. 

- Að mestu krydd og hveiti, þá einnig eitthvað af málmgrýti úr Nether fjöllum, svaraði lestarstjórinn. Nedgrace fannst Harild eitthvað flóttalegur og fylgdist rannsakandi með honum um stund en hún ákvað að láta það niður falla. 

Eftir að búið var að ákveða hvernig best væri að útfæra vagnagæsluna var lagt af stað. Jeager og Rothar voru í fararbroddi, öðru hvoru hljóp Jeager á undan og gætti þess að leiðin væri greið. Fyrsti dagurinn leið hjá tilbreytingalaus. Nether fjöllin risu há og tignarleg að baki þeirra. Að austan breiddi Háskógur úr sér. Um leið og síðustu sólargeislarnir sleikti efstu greinar trjánna í Silfurskógi kallaði Harild til ökumanna og lestin nam staðar. Innan tíðar hafði búðum verið slegið upp.

Ökumenn vagnalestarinnar voru þrír, Arnir, Lirial og Krall. Arnir var Illuskan maður, rétt skriðinn yfir tvítugt, grannur og útlimalangur. Lirial var hálfur-álfur, augljóslega ættuð sunnan frá Calimshan, dökk yfirlitum og seiðandi. Hún var þéttbyggð, ákveðin en hljóðlát. Krall var hins vegar af kyni orka og hávaxinn eftir því. Hár hans vafið í þéttar fléttur, augun kvik og handleggirnir sverir á við trjábol. Um kvöldið héldu Krall og Lirial sig frá vinunum en Arnir gaf sig á tal við þá.

- Eruð þið svona hetjur? Svona eins og hetjurnar sem komu í veg fyrir að Reglu drekans tækist að særa fram Tiamat? spurði hann og aðdáunin skein úr augum hans.

- Tja, við erum kannski frekar ævintýramenn, svaraði Noki.

- Ég ætla líka að verða ævintýramaður, sagði Arnir og dró fram ryðgað stuttsverð úr slíðri. – Ég get sko alveg barist, bætti hann við og tók nokkrar afkáralegar sveiflur með sverðinu. Augu Jaegers og Noka mættust og eflaust hugsuðu báðir hið sama: Drengurinn gæti eflaust ekki varið sig gegn árás hafragrauts. 

- Lofaðu mér að sjá þetta, drengur, skipaði Noki og teygði sig eftir sverðinu. Hann handlék sverðið um stund og ákvað síðan að skerpa aðeins á því. Hann ræddi um stund við Arnir um hinar ýmsu hættur sem steðja að ævintýramönnum og mikilvægi þess að eiga góðan ost í hjálminum, ef í harðbakkan slægi. Arnir hlýddi á hann og virtist éta upp hvert orð eins og gráðugur silungur.

- En vitið þið hver er í lokaða vagninum? hvíslaði Arnir, eftir að Harild hafði komið að eldinum og sett matarbita á disk, sem hann fór síðan með að bláa vagninum. Félagarnir hristu höfuðið. – Evelyn Lionshield, upplýsti Arnir loks og leit í kringum sig sigri hrósandi. Þegar hann sá skilningsvana blikið í augum nýfundinna vina sinna bætti hann við: – Dóttir Monar Lionshield, æðsta kaupmannsins í verslunarsamtökunum. Og vitið þið hvað? Hún kom til Everlund fyrir nokkrum dögum en í fyrradag sendi hún nokkra reiðmenn til Yartar og lét einn þeirra klæðast kuflinum sínum. Hugsið ykkur! Í kuflinum sínum.

Vinirnir svöruðu ekki Arnir en hugsuðu eflaust sitt hver í sínu horni. Kvöldið leið síðan þar sem allir skiptust á sögum og Nedgrace söng fyrir vina sína um leið og máninn hélt sífellt hærra á dökkan næturhimininn.  

-

Nóttin leið án nokkurra vandkvæða og í morgunsárið kallaði Harild til eklanna um að leggja af stað. Veðrið var grátt, Netherfjöllin voru hulin skýjaslæðu og þoka steig upp frá Eilífsmýri vestanmegin við Everlund slóða. Morguninn var kaldur og það tók vinina nokkra stund að ná yl í kroppinn. Um hádegisbil var tekið að rigna. Dobrain og Rothar leiddu förina sem fyrr. 

Um hádegisbil sáu þeir hvar hrosshræ lá á slóðanum. Harild stöðvaði vagnalestina um 40 metra frá hræinu.

- Þið kannið þetta, skipaði hann Rothar og Jaeger, sem kinkuðu kolli. Alazar, Nedgrace og Noki fylgdu í kjölfarið. Þegar félagarnir voru komnir nær sáu þeir að hrossið hafið verið fellt af einhverri stórri veru. Í þann mund sem þeir ætluðu að rannsaka þetta nánar stökk risavaxið tröll, grænt og illa lyktandi, og öskraði ógurlega. Það hóf hendurnar hátt á loft og bjóst til að reka Rothar á hol með hvössum og löngum klóm. Vinirnir voru þó við öllu búnir. 

- Arouin la'Xhar! hrópaði Alazar. Eldtungur teygðu sig úr fingrum hans og umvöfðu tröllið, sem öskraði af bræði. Nedgrace hvatti félaga sína til dáða og blés þeim anda í brjóst. Rothar hrópaði vígaóp til heiðurs Uthgar og hjó að tröllinu, höggið small í lærum verunnar. Jaeger stökk til með vopn í hvorri hönd og lét höggin dynja á óvættinni. Noki, sem var aðeins aftar en hinir bardagamennirnir, kastaði handöxi í tröllið. Í bræði sinni reyndi að það að klóra til Rothars og náði að særa bardagamanninn lítillega.

- Zhak! tónaði Alazar og særði fram eldskeyti sem skullu í bringu tröllsins. Ógeðfelld lykt af brunnu holdi tröllsins fyllti vitin. Það virtist trufla Nedgrace sem reyndi að leggja til verunnar með langsverði sínu, en hitti ekki. Rothar náði góðu höggi, svo tröllið féll fram á hnén. Jaeger þurfti ekki frekari hvatningar við, hann rak annað sverðið á kaf í bringu grænu verunnar svo fölgrænt blóð tröllsins spratt fram yfir hendur hans. Noki rak síðan smiðshöggið á verkið og hjó höfuðið af tröllinu.

- Hvaðan kom þetta? spurði Alazar hugsi og leit í kringum sig. Þá sá hann að vagnalestin var böðuð framandlegri og einkennilegri þoku. Það var augljóst að eitthvað mikið gekk á þar. Félagarnir ætluðu að hlaupa af stað, en þá virtust rætur spretta upp úr jörðinni og vefjast um þau. Nedgrace fann að hún var föst. Noki, Rothar og Jeager náðu að losa sig en jörðin í kringum Alazar virtist ekki hafa vaknað til lífsins með sama hætti.

Nokkrir skuggar runnu út úr þokunni og í ljós komu nokkrir orkar, vopnaðir grimmúðlegum öxum og klæddir í húðbrynjur en þó með dökkar hauskúpur sem axlarvörn á hægri öxl. Rothar froðufelldi af bræði og hljóp af stað með sleggjuna sína reidda hátt til höggs. Jeager slíðraði sverðin sín og losaði bogann af bakinu. Noki reyndi að fylgja Rothar eftir en þó að dvergar séu sérstaklega vel til þess fallnir að fara hratt yfir stutta vegalengd, þá voru fætur Rotha lengri og skrefin stærri.

- Zel-soui Ta, hvíslaði Alazar og sendi gráa álagatauma yfir orkana. Einn þeirra féll fram fyrir sig hrjótandi. Nokkuð sem virtist koma félögum hans á óvart. Rothar þurfti ekki frekari tækifæri, hann hjó með sleggjunni og hauskúpa orkans féll saman eins og uppblásinn svínsmagi sem stungið hefur verið á. Noki kom aðvífandi og orkarnir héldu hvergi aftur af sér. 

Þegar þau voru komin nær sáu þau að Harild og ökumenn vagnanna áttu í hörðum bardaga við hóp orka, sem virtust hafa náð að ræna yfirbyggða, bláa vagninum. Eftir drykklanga stund tókst Jeager og vinum hans að yfirbuga og fella orkana en það var dýrkeypt. Arnir hafði reynt að verja vagninn sinn með ryðgaða sverðinu en allt kom fyrir ekki. Orkarnir voru vanir bardagamenn og voru augljóslega afar skipulagðir og útsjónarsamir. 

- Gruumsh veri bölvaður og allt hans kyn, urraði Harild pirraður en jafnframt afar þreyttur eftir bardagann þegar þeim hafði tekist að hrinda árás síðustu orkanna. Hann hallaði sér fram á sverðið sitt, sviti draup af andliti hans og síðan leit hann í kringum sig. Loks rétti hann úr sér.  - Ég verð að biðja ykkur um að fara eftir orkunum. Í vagninum er dóttir Monar Lionshield, leiðtoga Lionshield verslunarsamtakanna, Evelyn, og ég veit að Monar myndi aldrei fyrirgefa mér ef við reyndum ekki að bjarga henni.

Rothar leit í kringum sig á vini sína, sem kinkuðu kolli hver af öðrum. Þau köstuðu mæðinni eitt augnablik en héldu síðan af stað. Jeager leiddi förina og rakti slóð orkanna. Eftir nokkra stund fundu þau vagninn, illa leikinn, og sáu að hann var tómur. Því var ekkert annað í stöðinni en að halda áfram, upp á heiðarmýrina. 

-

Sólin var sest þegar vinirnir komu fundu loks hvar búðir orkaættbálksins voru. Eftir langan dag, þar sem þau höfðu arkað langt upp á Eilífsmýri, milli hárra steinstöpla, kletta og lágvaxins mýrargróðurs. Búðirnar stóðu á örlítilli hæð, umvafðar klettum og stöplum. Leiðtogi orkanna hafði stillt bæði upp útvörðum sem og orkum á útkíki efst á stöplunum. Eftir að hópurinn hafði náð að fella einn útvarðanna, fíleflt tröll, var ákveðið að Jeager myndi taka út vörðinn sem var á vakt uppi á klettastöplinum. Hann læddist hratt í myrkrinu og ekki leið á löngu þar til að orkurinn lá dauður í blóði sínu. 

Á meðan komu vinirnir sér fyrir þannig að þau höfðu útsýni yfir búðirnar. Þegar Jeager sneri aftur ræddu félagarnir næstu skref og varð það ofan á að hann myndi læðast nær búðunum og athuga hvort Evelyn væri haldið fanginni í einhverju þeirra. Hann virtist næstum renna saman við myrkrið þar sem hann færði sig nær ættbálkinum. Nedgrace og Noki klifruðu upp á stöpulinn þar sem þau höfðu komið sér fyrir á meðan þau biðu Jeagers. Þá sá Noki að nokkrir orkar biðu nokkru fyrir utan búðirnar og virtust gæta lítils hellisskúta sem var lokaður með sérkennilegri og illa samsettri grind. 

Jeager skar lítið op á bakhlið fyrsta tjaldsins og komst að raun um að það virtist vera svefntjald. Hann læddist að næsta tjaldi og endurtók leikinn. Þar virtist vera um tjald leiðtoga ættbálksins að ræða. Hásæti, skreytt margskonar dökkum hauskúpum, var fyrir miðju tjaldsins og fremst í því var stór og vel vopnum búinn orkur að ræða við tvo risavaxna stórorka. Jeager leit vandlega í kringum sig en sá hvergi nokkuð sem gæti gefið til kynna hvar Evelyn væri haldið fanginni. Hann fór að næsta tjaldi og uppgötvaði að það var eins og hið fyrsta. Þegar hann skar op á fjórða tjaldinu og leit inn horfðist hann í augu við orkakonu, hún var nakin á fjórum fótum og var stór orki fyrir aftan hana að gamna sér með henni. Orkakonan hljóðaði upp af skelfingu þegar hún varð Jeager vör en það virðist aðeins æsa orkinn meira og slapp Jeager óséður að öðru leyti þaðan og ákvað að snúa aftur til félaga sinna. 

Þegar hann var kominn aftur sagði Noki honum frá því sem þau höfðu uppgötvað og ákvað hópurinn að ráðast á orkana við hellisskútann. Alazar lagði þagnarálög á hópinn og eftir að hafa lagt á ráðin var gert áhlaup á orkana. Það reyndist öllu erfiðara en þau höfðu reiknað með, því einn af orkunum fjórum við skútann var stórorki og honum tókst að opna stór sár á kvið Rothars, sem missti í kjölfarið meðvitund, og sökkva öxi sinni í öxl Nedgrace, áður en þeim tókst að yfirbuga stórorkann. 

Þau losuðu grindina frá hellismunanum og fundu Evelyn í skútanum. Þau flýttu sér á brott og komu sér úr augsýn orkabúðanna. 

- Þakka ykkur hjartanlega fyrir, vinir, sagði Evelyn þegar þau voru komin úr færi búðanna. Hún tók í hendur félaganna og var greinilega afar létt. Hún lagaði rauða og gula kuflinn og tók rautt hárið saman í fléttu.

- Ég verð að snúa aftur í vagninn, getið þið fylgt mér þangað?

- Það er nú kannski skynsamlegast að fara stystu leið niður að Everlund slóða, svaraði Noki.

- Nei, ég verð að komast í vagninn minn. Ég skal þrefalda það sem Harild samdi um við ykkur ef þið getið fylgt mér þangað.

- Þrefalda!? Ef það sem þig vantar þaðan er svona mikilvægt þá finnst mér þú eigir að borga okkur 500 gullpeninga, svaraði Noki. Evelyn sneri sér að honum, reiðiblik í grænum augum.

- Nei, þið réðuð ykkur í vinnu hjá föður mínum og ég hef boðið ykkur meira en nokkrum öðrum vörðum. Ef þið treystið ykkur ekki…, Evelyn lét orðin hanga í loftinu milli þeirra.

- Ef ég mætti skjóta inn nokkrum orðum, sagði Nedgrace, mér finnst allt í lagi svona eftir allt það vesen sem við máttum ganga í gegnum við að bjarga þér að við fengjum góða launauppbót. Sérstaklega ef við þurfum svo að fara aftur sömu leið til baka í stað þess að fara stystu leið í öryggið.

Augu Evelyn skutu gneistum.

- Nei, og aftur nei. Ég verð að sækja svolítið í vagninn. Hvort sem þið komið með eður ei.

Svo lagði hún af stað. Rothar andvarpaði og gekk af stað. Einn af öðrum héldum vinirnir af stað. þau örkuðu sömu leið tilbaka en fundu brátt hve þreytt þau voru orðin, enda búin að berjast við marga orka, fara um langa leið án hvíldar og ekki áð frá því þau vöknuðu um sólarupprás. Um nokkrum tímum fyrir sólarupprás var Nedgrace að niðurlotum komin og Jeager fann afdrepi fyrir þau.

Þau vöknuðu við hornablástur, svo virtist sem orkarnir voru komnir á slóð þeirra. Nedgrace var enn afar þreytt svo þau áræddu að hvíla sig aðeins lengur. Við sólarupprás sáu þau hvar nokkrir orkar í fylgd trölls voru ekki langt frá þeim og flýttur sér aftur af stað. Alazar notaði einfaldan galdur til að dreifa lykt þeirra og fela hana. Þau hlupu þannig óséð niður af hæðarmýrinni og fundu hvar ónýtur vagninn stóð.

Evelyn flýtti sér inn í hann og gróf upp úr leynihólfi leðurklædda skinnu með gullbindingum.

- Allt þetta vesen fyrir bók, tautaðu Nedgrace. Alazar leit á hana og tókst afar illa að fela vanþóknun sína á þessu skilningsleysi halflingsins.

- Jæja, nú getum við haldið áfram inn á slóðann, sagði Evelyn og stakk bókinni inn á sig.  

View

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.